Enski boltinn

Hálf öld liðin frá flugslysinu í München

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Veggmynd á Old Trafford sem heiðrar minningu þeirra leikmanna sem fórust í München árið 1958. Smelltu á myndina til að sjá stærri útgáfu.
Veggmynd á Old Trafford sem heiðrar minningu þeirra leikmanna sem fórust í München árið 1958. Smelltu á myndina til að sjá stærri útgáfu. Nordic Photos / Getty Images

Í dag eru liðin 50 ár síðan að 23 manns fórust í flugslysi rétt utan München í Þýskalandi en þar af voru átta leikmenn Manchester United.

Í dag klukkan 15.04 verður mínútuþögn bæði á Old Trafford, heimavelli Manchester United, og á vettvangi slyssins. Í kvöld verður einnig mínútuþögn fyrir landsleik Englands og Sviss á Wembley-leikvanginum.

Sir Bobby Charlton, Albert Scanlon, Harry Gregg, Bill Foulkes og Kenny Morgans eru fyrrum leikmenn United sem voru með í fluginu en lifðu slysið af. Þeir verða allir viðstaddir athöfnina á Old Trafford í dag.

Þá verður einnig mínútuþögn fyrir leik Manchester United og Manchester City í ensku úrvalsdeildinni á sunnudaginn kemur.

„Ég er viss um að stuðningsmenn og áhorfendur munu virða þessar mínútuþagnir," sagði Rio Ferdinand, leikmaður Manchester United. „Þetta verður áhrifarík og átakanleg stund og eigum við marga frábæra stuðningsmenn hér á Englandi."

„Þetta snýst ekki bara um Manchester United heldur einnig enska knattspyrnu."

Við athöfnina á Old Trafford í dag verður afhjúpað sérstakt minnismerki um „Busby Babes" í göngunum í suðurstúkunni á leikvanginum sem verður eftir það þekkt sem München-göngin.

„Busby Babes" var viðurnefnið sem leikmenn Manchester United fengu á þessum tíma en margir leikmannanna þóttu vera með þeim betri á Englandi. Þó enginn betri en Duncan Edwards, einn þeirra sem lést. Hann var aðeins 21 árs gamall en margir hafa sagt síðan þá að hann hefði án efa orðið besti knattspyrnumaður heims hefði hann lifað og spilað knattspyrnu áfram.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×