Enski boltinn

Bestu fyrirliðar Englands

Elvar Geir Magnússon skrifar
Stytta af Bobby Moore sem er fyrir utan Wembley leikvanginn.
Stytta af Bobby Moore sem er fyrir utan Wembley leikvanginn.

Enskir fjölmiðlar eru handvissir um að Steven Gerrard verði gerður að fyrirliða enska landsliðsins á miðvikudag. John Terry var fyrirliði liðsins undir stjórn Steve McClaren.

Sérfræðingar The Sun settu saman topp 10 lista yfir bestu fyrirliða Englands frá upphafi. Hér að neðan má sjá þennan lista.

1. Bobby Moore

Það kemur ekki á óvart að Bobby Moore trjóni á toppi listans. Hann lyfti bikarnum eftir sigur á HM 1966 sem er stærsta stund í sögu enska boltans. Liðið vann Vestur-Þýskaland í úrslitaleik.

2. Billy Wright

Sannur heiðursmaður sem fékk aldrei áminningu á öllum ferli sínum. Hann bar fyrirliðaband Englands 90 sinnum, met sem hann deilir með Bobby Moore. Hann var fyrirliði á þremur heimsmeistaramótum í röð milli 1950 og 1958.

3. Bryan Robson

Það var mikil ánægja meðal ensku þjóðarinnar með Robson sem fyrirliða. Þessi miðjumaður Manchester United bar bandið 65 sinnum og hefði líklega gert það oftar ef hann hefði ekki verið svona óheppinn með meiðsli. Var fyrirliði á EM 1988 og á HM 1986 og 1990.

4. Alan Shearer

Sannur leiðtogi enska landsliðsins á sínum tíma. Tók við bandinu eftir Evrópumótið 1996 og bar það á HM 1998 og EM 2000. Hafði allt að bera sem þarf að prýða góðan fyrirliða.

5. David Beckham

Hvort sem mönnum líkar betur eða verr þá er ljóst að Beckham er lifandi goðsögn hjá enska landsliðinu. Landsliðsferill hans var í hættu eftir rauða spjaldið gegn Argentínu 1998. Hann sýndi eftir það hversu sterkur karakter hann er og bar fyrirliðabandið 58 sinnum í 99 landsleikjum sínum.

6. Tony Adams

Adams bar bandið í fyrsta sinn gegn Rúmeníu á gamla Wembley 1994. Tveimur árum síðar var hann fyrirliði á Evrópumótinu sem haldið var á Englandi. Alan Shearer tók síðan við keflinu eftir að Adams viðurkenndi að hann væri alkahólisti.

7. Johnny Haynes

Pele sagði að Haynes væri besti sendingamaður sem hann hefði séð. Þessi sóknarmaður Fulham bar bandið í eftirminnilegum 9-3 sigri Englands á Skotlandi. Var fyrirliði á HM 1962.

8. Gary Lineker

Einn mesti markaskorari í sögu enska landsliðsins. Tók við fyrirliðastöðunni 1990 og bar bandið á Evrópumótinu 92.

9. Kevin Keegan

Keegan hefur aldrei legið á skoðunum sínum og það kom mörgum á óvart þegar hann var valinn fyrirliði. Hann var fyrirliði 31 sinni, þar á meðal á Evrópumótinu 1980.

10. Paul Ince

Fysti blökkumaðurinn sem var fyrirliði enska landsliðsins. Var aðeins fyrirliði í sjö leikjum en verður minnst fyrir mikla leiðtogahæfileika.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×