Enski boltinn

Portsmouth er ekki búið að kaupa Defoe

Defoe er enn sem komið er bara á lánssamningi hjá Portsmouth
Defoe er enn sem komið er bara á lánssamningi hjá Portsmouth Nordic Photos / Getty Images

Framherjinn Jermain Defoe sló í gegn í sínum fyrsta leik fyrir Portsmouth um helgina þegar hann skoraði mark í sínum fyrsta leik. Hann er hinsvegar ekki formlega orðinn leikmaður félagsins.

Portsmouth átti að hafa keypt Defoe fyrir óuppgefna upphæð frá Tottenhanm á elleftu stundu áður en félagaskiptaglugginn rann út á miðnætti þann 31. janúar, en nú er komið í ljós að um lánssamningi var að ræða - ekki beina sölu.

"Félagaskipti Defoe voru keyrð í gegn sem lánssamningur vegna tímaskorts. Við munum ganga frá endanlegum kaupum á honum í vikunni og svona lagað þekkist þegar lítill tími er til stefnu," sagði talsmaður Portsmouth.

Þessi uppákoma tengist því að Portsmouth náði ekki að selja Benjani til Manchester City á tilteknum tíma og fékk því ekki þær 9 milljónir punda sem City hafði boðið í hann.

"Ég kann ekki að útskýra smáatriðin í þessu en þegar klukkuna vantaði fimm mínútur í tólf á fimmtudagskvöldið voru þessi félagaskipti háð hvor öðrum því við treystum á að ná sölunni á Benjani í gegn, " sagði Harry Redknapp, stjóri Portsmouth.

"Það er í raun Benjani sem fer verst út úr þessu og ég finn til með honum. Ég vona að hann verði orðinn leikmaður Manchester City á mánudagskvöldið. Ef ég ætti að vera gráðugur, væri auðvitað best fyrir mig að halda honum því ég vildi ekki selja hann til að byrja með - en það eru góð viðskipti að fá þessa upphæð fyrir 29 ára gamlan leikmann og fá í staðinn 25 ára gamlan mann sem mun alltaf skora mörk fyrir liðið," sagði Redknapp.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×