Enski boltinn

Stjórarnir lýsa yfir stuðningi við Beckham

NordicPhotos/GettyImages

Knattspyrnustjórarnir í ensku úrvalsdeildinni virðast flestir hallast að því að David Beckham nái að leika 100. landsleik sinn fyrir Englendinga þó hann hafi ekki verið kallaður inn í fyrsta hóp Fabio Capello í gær.

Þeir Arsene Wenger, Martin O´Neill og Harry Redknapp segjast þannig telja að Beckham geti orðið aðeins fimmti Englendingurinn til að komast yfir 100 leikja múrinn.

Capello sagði ákvörðun sína byggða á þeirri staðreynd að Beckham hafi ekki spilað alvöru leik síðan í endaðan nóvember.

"Ég skil afstöðu Capello vegna þess hve lítið David hefur spilað og Capello er ekki maður sem lætur það hafa áhrif á ákvörðun sína að David geti komist í 100 leiki ef hann spilar. Ef einhver leikmaður á hinsvegar skilið að fara í 100 leiki með landsliðinu -er það David Beckham," sagði Martin O´Neill, stjóri Aston Villa.

Harry Redknapp, stjóri Portsmouth, hefði verið til í að sjá Beckham mæta Svisslendingum í næstu viku.

"Það hefði verið upplagt fyrir Beckham að ná þessum áfanga gegn Sviss því hann á það skilið. Hann hefur ekki verið að spila mikið undanfarið en ég held að það hefði verið allt í lagi að leyfa honum að spila þennan leik. Capello hefði þá bara sleppt því að velja hann næst ef það hefði ekki komið vel út," sagði Redknapp.

Arsene Wenger, stjóri Arsenal, er líklega sá maður sem veit best hvernig Beckham er að spila þessa dagana, því kantmaðurinn sparkvissi hefur verið að æfa með Arsenal í vetur.

"Ég vona sannarlega að David nái 100. leiknum sínum því hann á það skilið. Hann leggur mjög hart að sér við æfingar."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×