Enski boltinn

Beckham ekki í landsliðshóp Capello

NordicPhotos/GettyImages

David Beckham er ekki í landsliðshóp Fabio Capello fyrir vináttuleikinn gegn Sviss þann 6. febrúar. Hópurinn verður tilkynntur í dag en BBC fullyrðir að Beckham sé ekki í hóp Englendinga. Hann verður því að bíða eitthvað lengur eftir því að spila sinn 100. leik fyrir þjóð sína.

Capello hringdi í Beckham í gærkvöldi og tilkynnti honum ákvörðun sína, en hann á að hafa sagt leikmanninum að dyrnar væru þó alls ekki lokaðar á hann hjá landsliðinu og hann ætti möguleika á að verða fyrir valinu í framtíðinni. Það ku þó vera háð því að Beckham sé í formi go að spila reglulega með liði sínu LA Galaxy.

Mörgum þótti líklegt að Capello myndi færa fyrrum landsliðsfyrirliðanum tækifæri til að spila sinn 100. leik fyrir Englendinga, en það hafa aðeins fjórir menn afrekað áður.

Annað kom hinsvegar á daginn og ljóst að Capello er ekki að velta sér upp úr tilfinningalegum málefnum þegar hann velur hóp sinn.

Landsliðshópur Capello verður tilkynntur seinna í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×