Enski boltinn

Flottasta aukaspyrna sem ég hef séð

Nordic Photos / Getty Images

Síðara mark Cristiano Ronaldo gegn Portsmouth í gærkvöldi er umfjöllunarefni dagsins í dag í enskum fjölmiðlum. Ronaldo skoraði þá glæsilegt mark beint úr aukaspyrnu og sagði það besta mark sem hann hefði skorað á ferlinum. Alex Ferguson var honum sammála.

"Þetta var sennilega besta mark sem ég hef skorað á ferlinum. Ég æfi þetta sérstaklega á æfingum og ég var mjög ánægður með þetta mark. Ég tek spyrnurnar á þennan hátt af því það er mín sterka hlið," sagði hinn 22 ára gamli Ronaldo, sem hefur leikið manna best í ensku úrvalsdeildinni í vetur.

Sir Alex Ferguson, stjóri Manchester United, sparaði heldur ekki stóru orðin eftir leikinn - þar sem Ronaldo nánast gerði út um leikinn með tveimur mörkum á upphafsmínútunum.

"Þessi aukaspyrna var á pari við nokkuð annað sem ég hef séð í úrvalsdeildinni. Boltinn var tveimur eða þremur þumlungum undir slánni og enginn markvörður hefði varið þetta. Við höfum verið með nokkra frábæra spyrnumenn í okkar röðum og David Beckham skoraði þau nokkur - en nýting Ronaldo úr aukaspyrnum er með því besta sem gerist," sagði Ferguson.

Þetta var 27. mark Ronaldo fyrir United í vetur og nú vantar hann aðeins fimm mörk til að jafna met goðsagnarinnar George Best yfir flest mörk skoruðu af vængmanni hjá félaginu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×