Enski boltinn

Grétar og Heiðar spiluðu í jafnteflisleik

Elvar Geir Magnússon skrifar
Sunderland vann mikilvægan sigur. Hér er markinu sem Daryl Murphy skoraði fagnað.
Sunderland vann mikilvægan sigur. Hér er markinu sem Daryl Murphy skoraði fagnað.

Leikjunum þremur í ensku úrvalsdeildinni sem hófust klukkan 20 er lokið. Sunderland og Middlesbrough kræktu í mikilvæg stig í botnbaráttunni. Grétar Rafn og Heiðar léku fyrir Bolton sem gerði jafntefli gegn Fulham.

Bolton - Fulham 0-0

Grétar Rafn Steinsson var í byrjunarliði Bolton og þá var Heiðar Helguson á bekknum og kom inn sem varamaður á 83. mínútu. Þetta er í fyrsta sinn síðan í ágúst í fyrra sem Heiðar er í leikmannahópi Bolton en hann hefur átt við meiðsli að stríða.

Jimmy Bullard var í byrjunarliði Fulham en hann er að jafna sig eftir aðgerð. Þetta var fyrsti byrjunarliðsleikur hans í átján mánuði.

Baráttan var allsráðandi í þessum leik. Grétar Rafn komst næst því að skora fyrir Bolton í fyrri hálfleiknum en skemmtileg skottilraun hans fór naumlega yfir. Ekkert var skorað í leiknum og Fulham er enn í næstneðsta sæti deildarinnar.

Sunderland - Birmingham 2-0

Það var fallbaráttuslagur á Leikvangi ljóssins þar sem Birmingham kom í heimsókn. Phil Bardslay fór beint í byrjunarlið Sunderland en hann var keyptur frá Manchester United á dögunum.

Daryl Murphy kom Sunderland yfir snemma leiks eftir sendingu frá Kenwyne Jones. Í seinni hálfleik skoraði síðan sænski framherjinn Rade Prica í sínum fyrsta leik fyrir Sunderland. Prica var keyptur í síðustu viku frá Álaborg í Danmörku.

Middlesbrough - Wigan 1-0

Jeremie Aliadiere var hetja Middlesbrough. Hann skoraði sigurmarkið gegn Wigan í fyrri hálfleiknum. Það mark var ansi laglegt og þessi fyrrum leikmaður Arsenal sýndi frábæra afgreiðslu.

Wigan náði ekki að svara og Gareth Southgate gat leyft sér að brosa enda ansi mikilvæg stig fyrir Middlesbrough í botnbaráttunni. Liðinu hefur gengið erfiðlega að skora en þetta eina mark í kvöld dugði til sigurs.

Fimm leikir verða í deildinni á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×