Enski boltinn

Megson reynir að fá Eið aftur til Bolton

Megson vill ólmur fá Eið aftur til Bolton
Megson vill ólmur fá Eið aftur til Bolton AFP

Gary Megson, stjóri Bolton á Englandi, segist vera að vinna í að fá Eið Smára Guðjohnsen aftur til síns gamla félags frá Barcelona.

Eiður hefur mikið verið orðaður við félög eins og West Ham og Newcastle í vetur, en nú hefur Gary Megson viðurkennt að hann sé að reyna að fá Eið lánaðan aftur til félagsins sem hann lék fyrst með á Englandi á sínum tíma.

"Þetta er nokkuð sem ég hef verið að reyna að koma í kring. Það er til mikils mælst að reyna að fá mann eins og hann til liðs við okkur, en við erum til í það ef það hentar öllum aðilum. Eiður er leikmaður sem við teljum að geti hjálpað okkur en við vitum að við þurfum að hafa heppnina með okkur til að landa honum. Við erum með menn að vinna í þessu og munum halda því áfram þangað til janúarglugginn lokast," sagði Megson.

Eiður gekk í raðir Bolton fyrir tíu árum síðan og var tvö ár hjá félaginu áður en hann fór til Chelsea fyrir fimm milljónir punda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×