Enski boltinn

Alltaf hræddur um að missa Berbatov

Nordic Photos / Getty Images

Juande Ramos, stjóri Tottenham, segist ekki anda rólegur fyrr en félagaskiptaglugginn lokast í ljósi mikillar umræðu um áhuga nokkurrra stórliða á framherjanum Dimitar Berbatov.

Búlgarski markaskorarinn hefur mikið verið orðaður við lið eins og Manchester United í allan vetur og umboðsmaður hans hélt því fram á tímabili í síðasta mánuði að Berbatov vildi fara til stórliðs til að geta unnið titla.

"Við treystum mikið á hann en á meðan glugginn er opinn í janúar er alltaf hætta á því að hann fari frá okkur því hann er frábær leikmaður sem vekur mikinn áhuga annara liða," sagði Ramos.

"Hann er aftur á móti ánægður hjá liðinu í augnablikinu og það myndi þurfa að koma mjög gott tilboð frá stórum klúbbi til að draga hann í burtu," sagði stjórinn.

Ramos viðurkennir að hann hafi þegar sett sig í samband við spænska landsliðsmanninn David Albelda hjá Valencia, en samningur hans er við það að renna út.

"Við höfum þekkst lengi og ég spurði hann hver staðan væri á samningsmálum hans, því ef hann fengi sig lausan, hefði ég áhuga á að fá hann," sagði Ramos.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×