Enski boltinn

Blackburn samþykkti tilboð Derby í Savage

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Robbie Savage í leik með Blackburn.
Robbie Savage í leik með Blackburn. Nordic Photos / Getty Images

Blackburn hefur samþykkt tilboð Derby í Robbie Savage sem mun nú ræða við síðarnefnda liðið um kaup og kjör.

Savage hefur ekki verið í leikmannahópi Blackburn í undanförnum þremur leikjum en fyrir skömmu hafnaði félagið tilboði frá Sunderland í leikmanninn.

Hann gekk til liðs við Blackburn frá Birmingham árið 2005. Mark Hughes, stjóri liðsins, segir að honum liggi þó ekkert á að selja Savage.

„Robbie vill spila í hverri einustu viku og ég get ekki tryggt honum það," sagði Hughes. „En ef sú staða kemur upp að sala gæti hagnast okkur og Robbie sjálfur vill fara munum við skoða málin vel. Það er þó enginn að ýta Robbie frá Blackburn."

Paul Jewell, stjóri Derby, hefur mikinn áhuga á Savage. „Mér líkar vel við hann og held að það væri gott að fá einhvern með hans hugarfar til félagsins," sagði Jewell.

Derby er á botni ensku úrvalsdeildarinnar, átta stigum á eftir Fulham sem er í næstneðsta sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×