Innlent

Ísland hefur svigrúm til að víkja frá hvíldartímareglum

Ísland hefur svigrúm til að víkja frá reglum um að vörubílstjórar taki sér hvíld á fjögurra og hálfs tíma fresti samkvæmt reglugerð Evrópusambandsins. Rangt er hins vegar, sem vörubílstjórar hafa haldið fram, að reglugerðin nái ekki yfir eyríki eins og Ísland.

Íslensku hvíldarreglurnar segja að ökumaður skuli gera hlé á akstri í að minnsta kosti 45 mínútur eftir akstur í fjóra og hálfa klukkustund. Sturla Jónsson, talsmaður vörubílstjóra, hefur sagt að lögin sem íslenskum vörubílstjórum sé gert að fara eftir eigi sér enga stoð í eyríki eins og Íslandi.

Í samtölum fréttastofu Stöðvar 2 við vörubílstjóra hefur einnig borið á þeim misskilningi að evrópska reglugerðin eigi ekki við eyríki sem ekki séu tengd öðru ríki með brú, vaði eða göngum. Fréttastofa náði sér í evrópsku reglurnar og hið rétta er að undanþágan gildir um ökutæki sem eingöngu keyra á eyjum, ótengdum meginlandi, sem eru 2300 ferkílómetrar að stærð eða minni. En eins og margir vita er Ísland öllu stærra, eða rétt um 103 þúsund ferkílómetrar.

Hitt virðist rétt samkvæmt evrópsku reglugerðinni, sem þær íslensku eru byggðar á, að ráðherra hefur svigrúm til að hnika til aksturstímanum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×