Innlent

„Hvers vegna að gera við það sem ekki er bilað?"

Lúðvík Bergvinsson.
Lúðvík Bergvinsson.

Lúðvík Bergvinsson, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, segir að þingflokkurinn hafi farið vel yfir hugmyndir dómsmálaráðuneytisins um fyrirhugaða uppskiptingu á embætti lögreglustjórans á Suðurnesjum. Hann segir að þar á bæ séu menn sammála um að núverandi fyrirkomulag hafi virkað vel og því þurfi vandaðan rökstuðning fyrir breytingum.

„Þetta hefur fengið ágæta umræðu í þingflokknum," sagði Lúðvík „Í grunninn hafa menn horft á þetta þannig að embættið hefur virkað vel og það hefur nýtt samlegðaráhrif í landamæraeftirlinu sem hljótast af því að tollurinn, lögreglan og öryggisgæslan á flugvellinum lúti einni yfirstjórn." Lúðvík segir að því þurfi „mjög vandaðan rökstuðning fyrir breytingum."

„Hvers vegna að gera við það sem ekki er bilað?", spyr Lúðvík en hann vill þó ekki gera of mikið úr þessum ágreiningi sem nú virðist uppi á milli stjórnarflokkanna. Sjálfstæðismenn hafa þegar afgreitt hugmyndir dómsmálaráðherra út úr sínum þingflokki án breytinga. „Þeir hafa bara horft á þetta öðrum augum en við, einkum lausn á fjármálum embættisins. En þetta er bara eins og hvert annað verkefni. Menn fá hugmynd sem þeir vilja koma í gegn en svo þarf að ræða þá hugmynd. Þetta er ekkert sem eigum ekki eftir að leysa," segir Lúðvík Bergvinsson, formaður þingflokks Samfylkingarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×