Innlent

Sturla kærður fyrir að raska umferðaröryggi

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur lagt fram kæru á hendur Sturlu Jónssyni, talsmanni og leiðtoga vörubílstjóra, vegna aðgerða bílstjóranna undanfarnar tvær vikur.

Þetta fullyrti hann eftir skýrslutöku hjá lögreglu í morgun. Hann sagðist verða kærður fyrir brot á 168. grein almennra hegningarlaga. Þar segir að ef maður raskar öryggi járnbrautarvagna, skipa, loftfara, bifreiða eða annarra slíkra farar- eða flutningatækja eða umferðaröryggi á alfaraleiðum þá skuli hann sæta fangelsi allt að sex árum.

Vörubílstjórar fjölmenntu við lögreglustöðina á Hverfisgötu í morgun.MYND/Frikki

Sturla mætti einn til skýrslutöku í morgun laust fyrir klukkan níu en skömmu síðar mættu félagar hans fyrir utan lögreglustöðina og lögðu þar þremur vörubílum í aðrein að lögreglustöðinni. Eftir spjall við lögreglu færðu þeir bílana og fóru inn á lögreglustöð og biðu Sturlu.

Sturla sagði við fréttamenn eftir skýrslutökuna að kæran væri að hans mati algört bull. Þá kom fram í máli bílstjóranna að aðgerðum þeirra væri ekki lokið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×