Innlent

Bjarni vill harðari afstöðu gagnvart Kína vegna Tíbets

Bjarni Harðarson þingmaður Framsóknarflokksins vill að íslensk stjórnvöld taki upp harðari afstöðu gegn Kína vegna frelsisbaráttu Tíbeta. Bjarni gagnrýndi málflutning utanríkisráðherra á þingi í gær og kallaði einnig eftir afstöðu þingmanna Sjálfstæðisflokksins í málinu.

 

Bjarni skrifar um málið á bloggsíðu sinni í dag. Þar segir m.a. "Sjálfur hefi ég ekki verið róttækur í þessum efnum en tel engu að síður að Íslendingar eigi með afdráttarlausum hætti að lýsa yfir stuðningi við hina undirokuðu þjóð Tíbeta og baráttu þeirra við ógnarstjórn kommúnista. Engin slík yfirlýsing fékkst frá stjórnarliðum í gær þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir.

Eini liðsmaður okkar Framsóknar í þessu var fyrrverandi félagsmaður í Sjálfstæðisflokki, Jón Magnússon. Ingibjörg Sólrún vitnaði reyndar að hafa lýst yfir við Kínverja að þeim bæri að virða mannréttindi í Tíbet og það er vissulega skref í rétta átt en við þurfum að gera betur. Kínverjum ber að hlusta á réttmætar kröfur Tíbeta."

 

Síðan segir Bjarni að umræðan um Tíbeta, áratuga kúgun þeirra og réttindabaráttu er mikil nú um allan heim. Það sé mikilvægt að vestrænar þjóðir noti þetta lag til þess að þoka baráttu þessarar þjóðar fram á við hvort sem að lokaáfanginn er settur við aukna sjálfstjórn innan Kínverska alþýðulýðveldisins eða algert sjálfstæði.

"Reynslan kennir okkur að mikilvægasta vopnið í baráttu sem þessari er þrýstingur á viðkomandi stjórnvöld og það er eftir þeim þrýstingi sem ég kallaði í þingsölum í gær," segir Bjarni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×