Enski boltinn

Jewell hættur hjá Derby

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Paul Jewell, fyrrum stjóri Derby.
Paul Jewell, fyrrum stjóri Derby. Nordic Photos / Getty Images

Paul Jewell hefur sagt upp starfi sínu sem knattspyrnustjóri enska B-deildarliðsins Derby en hann hefur verið í rúmt ár í starfi.

Derby komst óvænt upp í úrvalsdeildina vorið 2007 er liðið var undir stjórn Billy Davies. Hann var rekinn á haustmánuðum í fyrra eftir að liðið byrjaði illa í deildinni og Jewell ráðinn í staðinn.

Ekki gekk liðinu betur þá og féll Derby úr deildinni í vor en engu liði hafði áður tekist að fá jafn fá stig í ensku úrvalsdeildinni - ellefu talsins. Derby vann aðeins einn leik á tímabilinu og það undir stjórn Davies. Jewell vann sinn fyrsta deildarleik með Derby í september í haust, tíu mánuðum eftir að hann tók við starfinu.

Derby er þó komið í undanúrslit ensku deildarbikarkeppninnar þar sem liðið mætir Manchester United í tveimur leikjum í næsta mánuði.

Derby hefur unnið sjö leiki af 26 til þessa í ensku B-deildinni og ákvað Jewell að hætta eftir að liðið tapaði 1-0 fyrir Ipswich á heimavelli í gær.

Adam Pearson, stjórnarformaður Derby, sagði í samtali við enska miðla í morgun að litlar líkur væru á því að Billy Davies myndi snúa aftur til félagsins.

Chris Hutchings, fyrrum aðstoðarmaður Jewell, mun taka tímabundið við starfinu og sagði Pearson að það kæmi jafnvel til greina að fastráða hann í starfið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×