Innlent

Há laun nýju bankastjóranna koma á óvart

Björgvin G. Sigurðsson.
Björgvin G. Sigurðsson.

"Það kom mér á óvart hvað laun bankastjóranna eru há, þó ég hafi ekki enn heyrt um laun bankastjóra Landsbanka og Glitnis. En fréttir af launum Kaupþingsbankastjórans benda til þess að þau séu hærri en búist var við," segir Björgvin Guðni Sigurðsson viðskiptaráðherra um laun nýju bankastjóranna.

„Ég tel að stjórnir bankanna verði að endurmeta þessi mál sem og annað sem kemur að rekstri bankana þegar þar að kemur. Ég átta mig á því að margt er gert við erfiðar aðstæður þegar vinna þarf hratt, en sanngjarnasta viðmiðið við laun hljóta að vera kjör annarra ríkisforstjóra sem eru lægri. Því beini ég því til bankastjórnanna að endurmeta þetta og samræma við sambærileg laun," segir viðpskiptaráðherra enn fremur.

Líkt og komið hefur fram í fjölmiðlum er Finnur Sveinbjörnsson nýráðinn bankastjóri Nýja Kaupþings með 1.950.000 krónur í mánaðarlaun. Ekki hafa fengist upplýsingar um laun þeirra Elínar Sigfúsdóttur, bankastjóra Nýja Landsbankans, og Birnu Einarsdóttur, bankastjóra Nýja Glitnis.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×