Innlent

Færri leita ráðgjafar hjá geðsviði en búist hafði verið við

Færri hafa sótt sér sérstaka ráðgjöf á vegum geðsviðs Landspítalans en búist var við. Þangað leita að meðaltali einn til fjórir á dag. Það mæðir hins vegar mikið á starfsfólki Hjálparsíma Rauða krossins.

Geðsvið Landspítalans hóf fyrir tæpum tveimur vikum að veita sérstaka sálfræðiráðgjöf í Heilsuverndarstöðinni við Barónsstíg fyrir fólk sem líður illa vegna efnahagsástandsins og glímir til að mynda við kvíða og depurð. Að meðaltali koma þangað einn til fjórir á dag til að leita sér aðstoðar. Engilbert Sigurðsson, yfirlæknir á geðsviði, segir aðsóknina hafa verið minni en þeir hafi búist við fyrirfram.

Rauði krossinn starfrækir hjálparsímann 1717. Hann er opinn allan sólarhringinn og geta þeir sem þurfa aðstoð vegna depurðar og kvíða leitað þangað sér að kostnaðarlausu.

Að meðaltali berast á milli sextíu og sjötíu símtöl á dag. Símtölunum hefur fjölgað síðustu þrjár vikurnar og sífellt fleiri hringja til að ræða áhyggjur sem þeir hafa af fjármálum sínum og þrengingum í efnahagslífinu. Í síðustu viku bárust þangað hátt í sex hundruð símtöl sem er ríflega þriðjungi meira en á sama tíma í fyrra.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×