Enski boltinn

Ronaldo-málið er dautt

Ramon Calderon
Ramon Calderon NordicPhotos/GettyImages

Ramon Calderon, forseti Real Madrid, fékkst ekki til að fara í fjölmiðlastríð í kjölfar ummæla Alex Ferguson í gær þar sem hann sagðist ekki vilja selja Real Madrid svo mikið sem vírus.

Knattspyrnustjóri Manchester United lét þessi orð falla á blaðamannafundi eftir að hann var spurður út í enn eitt slúðrið sem fór af stað þess efnis að vængmaðurinn Cristiano Ronaldo væri á leið til spænska félagsins.

Calderon vísaði slúðrinu alfarið á bug á heimasíðu Real og furðaði sig á viðbrögðum Alex Ferguson.

"Manchester United hefur ekki samþykkt neitt tilboð í Ronaldo og það er rangt að samningar þess efnis séu í höfn líkt og haldið hefur verið fram. Ég er orðinn þreyttur á þessari umræðu og vil ekki tala lengur um hana," sagði Calderon.

"Félag á borð við Real Madrid nýtur mikillar virðingar og hagar sér samkvæmt því. Við munum ekki reyna að móðga eða tala niður til andstæðinga okkar og það er kannski þess vegna sem félagið nýtur virðingar. Það er sorglegt að atvinnumaður eins og Ferguson skuli láta svona út úr sér ofan á það sem hann hefur sagt síðustu mánuði, en Real mun ekki svara á sömu nótum," sagði forsetinn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×