Fótbolti

Schneider ekki með Þýskalandi á EM

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Bernd Schneider í leik með þýska landsliðinu gegn Austurríki í febrúar síðastliðnum.
Bernd Schneider í leik með þýska landsliðinu gegn Austurríki í febrúar síðastliðnum. Nordic Photos / Bongarts

Joachim Löw, landsliðsþjálfari Þýskalands, sagði í dag að það væri útilokað að Bernd Schneider gæti spilað með þýska landsliðinu á EM í fótbolta í sumar.

Schneider gekkst undir aðgerð í síðustu vika vegna skemmda á liðþófa á milli hryggjarliða í hálsi. Honum hefur verið bannað að æfa til 1. júní og verður ekki orðinn leikfær á ný fyrr en um miðjan júlí.

„Það er virkilega slæmt að missa Bernd úr hópnum. Hann býr yfir mikilli reynslu og er einn af okkar leiðtogum í landsliðshópnum," sagði Löw.

„Maður verður bara að taka því að það tekur tíma að ná sér af þessum meiðslum og það má ekki flýta sér um of í endurhæfingunni. Það mikilvægasta er að Bernd nái sér sem fyrst og verði klár í slaginn á næsta tímabili."

„Þetta er svekkjandi en heilsan hefur forgang," sagði Schneider sem er 34 ára gamall. „En það er HM eftir tvö ár og kannski get ég tekið þátt í þeirri keppni."

Löw mun tilkynna landsliðshópinn sem fer á EM í sumar þann 16. maí næstkomandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×