Enski boltinn

Lampard ekki með á morgun

Elvar Geir Magnússon skrifar
Lampard með Avram Grant, knattspyrnustjóra Chelsea.
Lampard með Avram Grant, knattspyrnustjóra Chelsea.

Frank Lampard mun ekki leika með Chelsea á morgun þegar liðið tekur á móti Manchester United í toppslag ensku úrvalsdeildarinnar. Móðir hans lést úr lungnabólgu miðvikudagskvöld.

Lampard missti af leikjunum gegn Wigan og Everton og þá er óvíst hvort hann verði tilbúinn til að leika seinni leikinn gegn Liverpool í undanúrslitum Meistaradeildarinnar næsta miðvikudag.

„Félagið mun veita Frank og fjölskyldu hans allan þann stuðning sem mögulegt er á þessum erfiðu tímum," sagði í tilkynningu frá Chelsea. Móðir hans, Pat Lampard, var 58 ára gömul en hún var eiginkona Frank Lampards eldri en hann var goðsögn hjá West Ham.

„Pat var mjög þekkt andlit hjá mörgum hér hjá Chelsea. Hún sýndi syni sínum mikinn stuðning og var viðstödd nánast alla leiki sem hann spilaði, sama hvar þeir fóru fram. Hennar verður sárt saknað af öllum hjá Chelsea," sagði í yfirlýsingu Chelsea.

Leikur Chelsea og Manchester United á morgun hefst 11:45 og verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport 2.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×