Enski boltinn

Rooney: Barátta milli okkar, Chelsea og Liverpool

Elvar Geir Magnússon skrifar
Leikmenn United fagna markinu í gær.
Leikmenn United fagna markinu í gær.

Wayne Rooney, sóknarmaður Manchester United, telur að baráttan um enska meistaratitilinn þetta tímabilið muni standa milli þeirra þriggja liða sem nú eru í efstu sætum.

„Það má ekki afskrifa Arsenal og Aston Villa er að gera góða hluti en ég held samt að á endanum muni þrjú efstu liðin í dag berjast um þetta," sagði Rooney og er þá að tala um Liverpool, Chelsea og United.

Manchester United hefur gengið illa í markaskorun á tímabilinu og aðeins skorað 29 mörk í 18 úrvalsdeildarleikjum, þar á meðal sex í síðustu sex leikjum.

„Auðvitað viljum við skora fleiri mörk. Á síðasta tímabili hefðu úrslitin um enska meistaratitilinn getað ráðist á markatölu í lokaumferð. Þessi hluti tímabilsins er samt erfiður og mikilvægast að ná inn stigum," sagði Rooney.

Manchester United vann 1-0 sigur á Middlesbrough í gær en Dimitar Berbatov skoraði sigurmarkið. Berbatov hefur reynst gulls ígildi fyrir United um hátíðarnar en hann lagði upp sigurmarkið gegn Stoke á öðrum degi jóla.

„Það var frábær tilfinning að skora þetta mark gegn Middlesbrough. Við þurftum nauðsynlega á sigri að halda og okkur tókst það. En ég á enn meira inni og er staðráðinn í að verða enn betri seinni hluta mótsins," sagði Berbatov eftir leikinn í gær.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×