Innlent

Von á dómi Hæstaréttar vegna kynferðisbrotamáls Guðmundar í Byrginu

MYND/Egill Bjarnason

Munnlegur málflutningur var í Hæstarétti í dag í máli ákæruvaldsins á hendur Guðmundi Jónssyni, fyrrverandi forstöðumanni Byrgisins, vegna kynferðisbrota hans.

Guðmundur var í maí á þessu ári dæmdur í þriggja ára fangelsi fyrir kynferðisbrot gagnvart fjórum konum sem voru skjólstæðingar hans í Byrginu. Var hann auks þess dæmdur til að greiða um tólf milljónir króna í sakarkostnað og miskabætur.

Guðmundi var gefið að sök að hafa notfært sér andlega annmarka kvennanna til þess að hafa við þær samræði eða önnur kynferðismök meðan þær voru til meðferðar í Byrginu. Málið komst upp þegar fjallað var um málefni Byrgisins í fréttaskýringarþætttinum Kompási í desember 2006. Alls kærðu átta konur Guðmund í málinu en mál fjögurra þeirra voru látin niður falla. Búast má við því að dómur Hæstaréttar í málinu falli á næstu vikum.

Auk kynferðisbrotaákærunnar sætir bókhald Byrgisins rannsóknar hjá efnahagsbrotadeild Ríkislögreglustjóra og er henni að ljúka. Ákveðið var að ráðast í rannsóknina eftir svarta skýrslu Ríkisendurskoðunar um fjármál Byrgisins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×