Enski boltinn

Öruggt hjá Arsenal gegn Reading

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Cesc Fabregas og Ibrahima Sonko.
Cesc Fabregas og Ibrahima Sonko. Nordic Photos / Getty Images

Arsenal vann afar öruggan sigur á Reading í dag, 2-0, og hefðu getað skorað mun fleiri mörk. Reading á því enn harða fallbaráttu fyrir höndum.

Emmanuel Adebayor og Gilberto Silva skoruðu mörk Arsenal í fyrri hálfleik.

Theo Walcott fékk óvænt sæti í byrjunarliði Arsenal á kostnað Emmanuel Eboue og þá var Jens Lehmann í marki liðsins þar sem Manuel Almunia á við meiðsli að stríða.

Arsenal byrjaði leikinn mun betur og kom því ekki á óvart þegar fyrsta marki leit dagsins ljós á 30. mínútu. Emmanuel Adebayor var þar að verki með sitt 27. mark á tímabilinu en hann fékk sendingu frá Kolo Toure og afgreiddi knöttinn laglega í netið.

Aðeins átta mínútum síðar skoraði Arsenal síðara markið. Fabregas lagði boltann út á Gilberto sem skaut að marki nokkrum metrum utan vítateigsins. Boltonn hafði hins vegar viðkomu í Andre Bikey og af honum fór boltinn í markið.

Arsenal fékk fjöldamörg tækifæri til að bæta við mörkum. Robin Van Persie átti glæsilegt skot í markrammann beint úr aukaspyrnu og Walcott átti sömuleiðis skot í slá skömmu síðar.

Allt kom þó fyrir ekki og Reading fékk ekki mörg færi í leiknum. Alex Hleb var þó afar heppinn að fá ekki rautt þegar hann virtist slá til Graeme Murty en öll kurl eru sennilega ekki enn komin til grafar í því máli.

Reading er því enn í sextánda sæti deildarinnar með 32 stig og þarf að stóla á að liðin fyrir neðan í töflunni vinni ekki sína leiki um helgina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×