Erlent

Allt með kyrrum kjörum í Genf

Umfangsmesta vísindatilraun sögunnar hófst í morgun þegar öreindahraðall CERN vísindastofnunarinnar í Genf var gangsettur. Vísindamenn segja að engin ástæða sé til að óttast að tilraunin endi í tortímingu jarðar en hún geti hinsvegar veitt nýja innsýn í efnissamsetningu alheimsins.

Einni mikilvægri spurningu vísindamanna var svarað strax í morgun, spurningunni um hvort hinn ótrúlegi tækjabúnaður á hundrað metra dýpi undir borginni Genf virki yfirleitt. Það gerir hann.

Fyrstu öreindunum var skotið inn í 27 kílómetra langar leiðslurnar klukkan sjö í morgun. Þær þjóta nú í gegnum alkulið í leiðslunum á ljóshraða, fara 11 þúsund hringi á sekúndu. Þessi dýrasta og - að sögn vísindamanna - stórkostlegasta vísindatilraun í sögunni miðar meðal annars að því að setja á svið aðstæður eins og þær sem voru sekúndubrotum eftir miklahvell, þegar heimurinn varð til fyrir 3,7 milljörðum ára, að því talið er. Vísindamenn vonast til að sjá og grípa eindir sem mönnum reiknast til að séu til en enginn getur verið viss um að séu raunverulegar.

Á næsta ári eða svo vonast menn til að sanna eða afsanna kenningar sem meðal annars leitast við að útskýra hvaða efni mynda alheiminn. Búist er við að gögnin, sem safnað er í tölvum, myndu - ef þau væru brennd á geisladiska - fylla geisladiskastæðu sem næði um tuttugu kílómetra hæð.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×