Fótbolti

EM svanasöngur Henry með Frökkum?

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Eiður Smári Guðjohnsen og Thierry Henry, leikmenn Barcelona.
Eiður Smári Guðjohnsen og Thierry Henry, leikmenn Barcelona. Nordic Photos / AFP

Thierry Henry viðurkennir að hann hefur velt fyrir sér að leggja landsliðsskóna á hilluna eftir EM í sumar.

Þetta sagði hann í samtali við L'Equipe í dag. „Ég get ekki sagt að ég hafi ekki verið að velta því fyrir mér. Ég er 31 árs gamall framherji."

Henry á markamet franska landsliðsins en hann hefur alls skorað 44 mörk í 98 landsleikjum. Hann verður vitanlega með Frökkum á EM í sumar og nær þá væntanlega þeim áfanga að leika sinn 100. landsleik.

Henry sagði enn fremur að hann eigi von á því að vera áfram hjá Barcelona. „Ég á enn þrjú ár eftir af samningi mínum þannig að sem stendur er ég enn leikmaður félagsins. En sem stendur er ég einbeittur að EM í sumar og hitt verður bara að koma í ljós."

Hann hefur trú á því að Frakkar gæti unnið EM í sumar en þeir eru með Ítalíu, Hollandi og Rúmeníu í riðli. „Við erum með lið sem getur vel farið alla leið en við verðum að taka fyrsta leikinn sem er gegn Rúmeníu mjög alvarlega."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×