Enski boltinn

Ian Wright gerir upp tímabilið

Elvar Geir Magnússon skrifar
Ian Wright.
Ian Wright.

Breska blaðið The Sun fékk markahrókinn fyrrverandi Ian Wright til að gera upp tímabilið í ensku úrvalsdeildinni. Lokaumferðin verður leikin um næstu helgi. Hér að neðan má sjá val Ian Wright í hinum ýmsu flokkum.

Knattspyrnustjóri ársins:

Harry Redknapp

„Ég hefði viljað sjá enska knattspyrnusambandið ræða við Redknapp þegar það leitaði að næsta landsliðsþjálfara. Hann hefur aldrei fengið það hrós sem hann á skilið. Ég veit af eigin reynslu hve frábær knattspyrnustjóri hann er eftir að hafa leikið undir hans stjórn hjá West Ham."

Heimskasti eigandi ársins:

Tom Hicks

„Sífellt fleiri lið eru að komast í eigu manna sem hafa enga tilfinningu fyrir leiknum. Hicks hjá Liverpool fær þó þessi verðlaun fyrir að hafa haft slæm áhrif bæði innan og utan vallarins."

Mark tímabilsins:

Emmanuel Adebayor

„Annað markið frá Adebayor í 3-1 sigri gegn Tottenham í september. Hann sýndi frábæra tækni þegar hann átti ótrúlegt skot framhjá Paul Robinson í marki Tottenham."

Leikmaður ársins:

Cristiano Ronaldo

„Er nálægt því að ná sömu hæðum í vinsældum á Old Trafford og David Beckham. Ef hann heldur áfram á sömu braut verður hann meiri United-goðsögn en sjálfur Eric Cantona."

Ungi leikmaður ársins:

Enginn

„Það eru of fáir unglingar að spila í ensku úrvalsdeildinni því þeim er ekki sýnt traust. Stjórarnir vilja frekar notast við erlenda leikmenn. Cesc Fabregas fékk þessi verðlaun en sá spænski er orðinn 21. árs."

Slakasti leikmaður ársins:

Rolando Bianchi

„Kom til Manchester City frá Reggina í júlí fyrir 8,8 milljónir punda. Lék aðeins sjö leiki í byrjunarliði í úrvalsdeildinni áður en hann var lánaður til Lazio. Sven Göran Eriksson hefur gert góða hluti hjá City og á ekki skilið að fá þá meðhöndlun sem hann hefur fengið. Hann gerði samt mikil mistök með kaupum á Bianchi."

Fáránlegasta starf ársins:

Aðstoðardómarar

„Það er ekki flókið starf að vera aðstoðardómari. Samt gera þeir fullt af mistökum. Mér finnst að það ætti að velja áhorfendur sem koma á völlinn í þetta hlutverk. Þeir myndu gera þetta betur."

Persónuleiki ársins:

David James

„Allir sem þekkja James vita hve frábær persónuleiki hann er. Hann hefur þurft að þola mikla gagnrýni en alltaf svarað á vellinum. Hann er alltaf brosandi, mjög jákvæður og frábær markvörður. Ég vildi að það væru fleiri eins og hann í fótboltanum."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×