Innlent

Útvarpsstjóri hótar að senda lögfræðinga á G. Pétur

Páll Magnússon og G. Pétur Matthíasson eru komnir í hár saman.
Páll Magnússon og G. Pétur Matthíasson eru komnir í hár saman.

Ríkisútvarpið mun leita réttar síns með aðstoð lögfræðinga, muni G. Pétur Matthíasson, fyrrverandi fréttamaður á RÚV, ekki skila gögnum sem hann tók frá RÚV innan sólarhrings og biðjast afsökunar á framferði sínu. Fram kemur á fréttavef RÚV að tilefnið sé að Pétur birti á bloggsíðu sinni viðtal sem hann tók við Geir H. Haarde forsætisráðherra árið 2007, þegar hann starfaði sem fréttamaður á RÚV.

Þar spurði Pétur um skoðanir Geirs á ummælum stjórnmálamanna um upptöku evru án inngöngu í ESB. Geir stöðvaði viðtalið vegna óánægju með spurningar Péturs. Á myndbandinu sjást svo orðaskipti Geirs og Péturs í kjölfarið, en upptakan var aldrei notuð.

Páll Magnússon segir, í bréfi til starfsmanna RÚV, að verði Pétur ekki við tilmælum sínum verði málið afhent lögfræðingum Ríkisútvarpsins til meðferðar. Hann segir að gögnin hafi verið tekin í heimildarleysi.

G. Pétur segist í samtali við Vísi hafa fengið mikil viðbrögð við birtingu myndskeiðsins á vefsíðu sinni og langflestir hafi þakkað sér fyrir birtingu þess. Fáir hafi haft beint samband við sig vegna málsins en margir vakið máls á því í gegnum Netið. G. Pétur segist enn vera að hugleiða hvernig hann muni bregðast við erindi útvarpsstjóra.

Hægt er að sjá viðtalið hér.

Bréf útvarpsstjóra til starfsmanna RÚV má lesa með því að smella á hlekkinn hér að neðan.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×