Fótbolti

Fletcher: Íslenska liðið hreif mig

Elvar Geir Magnússon skrifar
Fletcher og George Burley.
Fletcher og George Burley.

Darren Fletcher, miðjumaður Skotlands og Manchester United, var virkilega ánægður með stigin þrjú í kvöld. „Það mikilvægasta er að við náðum sigri í kvöld. Baráttan var til staðar þó við héldum boltanum ekki vel," sagði Fletcher við Vísi eftir leik.

„Það er sama hverjir mótherjarnir eru, það er alltaf erfitt að spila á útivelli í svona keppni. Þetta var erfiður leikur og íslenska liðið hreif mig. Þeir léku vel sín á milli og það kom mér mjög á óvart. Þeir geta gert góða hluti í riðlinum. Þetta var skemmtilegur leikur áhorfs og við þurftum að hafa mikið fyrir þessu," sagði Fletcher.

„Það eru nokkrir mjög góðir leikmenn í íslenska liðinu. Ég lék gegn Hermanni Hreiðarssyni í fyrstu leikjunum í Englandi og hann er mjög erfiður viðureignar og sterkur atvinnumaður. Svo skapaði Eiður Smári Guðjohnsen usla hjá okkur en annars náðum við að höndla hann vel og vörnin hjá okkur náði sér vel á strik.

Það er skammt stórra högga á milli hjá Fletcher. Í kvöld lék hann á Laugardalsvellinum en á laugardaginn heldur hann með félögum sínum í Manchester United á Anfield og leikur gegn Liverpool. Fletcher er markahæsti leikmaður United á tímabilinu.

„Það er gríðarlega mikilvægur leikur og við verðum að sækja þrjú stig í honum. Leikirnir gerast ekki stærri en þegar við mætum á Anfield og ég hlakka mikið til leiksins," sagði Fletcher.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×