Fótbolti

Hermann: Frábær karakter í liðinu

Mynd/Vilhelm

Hermann Hreiðarsson fyrirliði var mjög sáttur við jafntefli íslenska landsliðsins í Noregi í dag og segir liðið hafa sýnt hvað í því býr.

"Liðið sýndi bara gríðarlegan karakter að ná jafntefli eftir að hafa lent undir tvisvar gegn sterku fótboltaliði. Það býr meira í þessu liði og það var kominn tími til að sýna það með því að ná almennilegum úrslitum. Við hefðum meira að segja geta stolið þessu þarna í restina," sagði Hermann í samtali við Arnar Björnsson á Stöð 2 Sport eftir leikinn.

"Þessi leikur gildir ósköp lítið nema við byggjum á þessu og spilum vel á móti Skotum á miðvikudaginn."

Það vakti athygli þegar Hermann hellti sér yfir Steffen Iversen markaskorara Norðmanna í síðari hálfleik. Hann var spurður að því hvað hann hefði sagt við Norðmanninn.

"Ég spurði hann bara hvort hann væri ekki Skandinavi - hvort hann þyrfti að liggja í vellinum eins og Ítali," sagði Hermann léttur í bragði. "Hann var þegar búinn að fiska eitt víti með því að leggjast í jörðina og það var alveg nóg."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×