Innlent

Svartir tímar framundan hjá innflutningsfyrirtækjum

Lán innflutningsfyrirtækja hafa hækkað um 150 prósent á einu ári. Öll þurfa þau að staðgreiða vörur frá útlöndum og framundan eru svartir tímar, segir framkvæmdastjóri Félags íslenskra stórkaupmanna. Hann segir ríkið verða að skipta um gjaldmiðil.

Ef gengisvísitalan helst í þessum lægðum og lægri, verða skuldir 70-80% innflutningsfyrirtækja hærri en eigið fé þeirra í árslok. Þessi fyrirtæki geta ekki vonast til þess að erlendis birgjar séu tilbúnir til að lána þeim fyrir vörum. Þetta segir Knútur Signarsson, framkvæmdastjóri Félags íslenskra stórkaupmanna.

Knútur segir að flest séu fyrirtækin með lán í japönskum jenum og svissneskum frönkum. Lánin hafi hækkað um 150% á einu ári. Nú verði allir að staðgreiða vörur sínar frá útlöndum, áður hafi menn fengið 60-90 daga fyrirgreiðslu. Knútur segir fjöldagjaldþrot fyrirtækja vera framundan.

Knútur segir ríkisvaldið bregðast afar hægt við erfiðum aðstæðum, nú verði að lækka stýrivexti og að taka upp evru. Og það sem allra fyrst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×