Innlent

Borgin vill semja við SÁÁ

Jórunn Frímannsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, er formaður velferðarráðs Reykjavíkurborgar.
Jórunn Frímannsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, er formaður velferðarráðs Reykjavíkurborgar.

Velferðarráð Reykjavíkurborgar vill semja við SÁÁ um rekstur búsetuúrræðis með félagslegum stuðningi.

Velferðarráð ákvað 27. ágúst að slíta samningaviðræðum við Heilsuverndarstöðina um rekstur áfangaheimilis í Norðlingaholti. í framhaldinu voru teknar upp að nýju viðræður við SÁÁ, Ekron og Samhjálp um rekstur áfangaheimilisins.

,,Það er aukafundur í velferðarráði á morgun og þar verður málið tekið fyrir og ég vonast til að tillagan verði samþykkt samkvæmt fyrirliggjandi samningsdrögum," segir Jórunn Frímannsdóttir formaður velferðarráðs.

SÁÁ og Vinstri grænir gagnrýndu í byrjun sumars þá ákvörðun velferðarráðs að ganga til samninga við Heilsuverndarstöðina þar sem tilboð SÁÁ var lægra. Við val á samstarfsaðila hafði talsverð áhrif að Heilsuverndarstöðin hafði til taks hentugt húsnæði fyrir umrædda starfsemi. Svo reyndist ekki vera þegar á reyndi.

Allt lítur út fyrir að málinu fari senn að ljúka og áfangaheimilið hefji starfsemi sína innan skamms. SÁÁ hefur til umráða bráðabirgðahúsnæði fyrir reksturinn og hugsanlega verður heimilið opnað í lok nóvember.




Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×