Enski boltinn

Reiður Brown hótar breytingum í janúar

AFP

 

Phil Brown stjóri Hull hefur hótað því að gera breytingar á leikmannahóp sínum í janúar eftir að þeir hlutu skelfilega útreið gegn Manchester City í dag.

City var búið að vera í vandræðum í undanförnum leikjum rétt eins og Hull, en aðeins eitt lið var á vellinum fyrir hlé þegar City náði 4-0 forystu og vann að lokum öruggan 5-1 sigur.

Það vakti mikla athygli á Englandi í dag þegar Phil Brown ákvað að safna leikmönnum sínum saman á vellinum fyrir framan stuðningsmenn Hull og húðskamma þá eftir að flautað hafði verið til hálfleiks.

Honum var greinilega ekki runnin reiðin þegar Sky náði tali af honum eftir leikinn.

"Þetta var alls ekki nógu gott. Við vissum að City væri í smá krísu og því vildum við skora snemma, en þess í stað voru það þeir sem komust yfir og létu svo kné fylgja kviði. Þeir eru með gott lið en það er alveg óásættanlegt að vera 4-0 undir í hálfleik. Við létum leikmennina heyra það í dag og þeir áttu það skilið. Eitt og annað var sagt sem þurfti að segja. Fólk hefur talað um að City geti ekki beðið eftir að félagaskiptaglugginn opnist í janúar, en kannski má frekar segja það um okkur," sagði Brown.

"Það er ekki langt í fallbaráttu hjá okkur, það er svo einfalt og svo verða menn að hugsa til þeirra 4,000 áhorfenda sem skipulögðu þetta ferðalag til að fylgja okkur á öðrum degi jóla," sagði Brown.

 

Smelltu hér til að sjá myndbrot frá BBC þar sem Brown skammar sína menn í hálfleik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×