Innlent

Ingibjörg: Tvö næstu ár verða þjóðinni erfið

MYND/GVA

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra segir næstu tvö ár verða þjóðinni erfið og segir afar mikilvægt að allir aðilar gangi í takt. Þetta kom fram í máli hennar í umræðum um þingsályktunartillögu um samstarf við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn á Alþingi í dag.

Ingibjörg sagði að stjórnvöld, Seðlabankinn og aðilar vinnumarkaðarins yrðu að ganga í takt og láta áætlanir stjórnvalda takast. Fólk yrði að vinna í samræmi við áætlunina og gera það sem hægt væri til að verja heimilin í landinu og fyrirtækin.

Ingibjörg lagði áherslu á að Íslendingar einangruðu sig ekki á alþjóðavettvangi heldur leituðu aðstoð annarra þjóða. Ekki ætti að draga sinn inn í skel og troða illsakir við aðra. Sagði Ingibjörg að það gæti vel verið að vinaþjóðir okkar hefðu sitthvað við okkur að athuga og þá yrðum við bara að þola það. Ráðherra lagði enn fremur áherslu á að halda góðum samskiptum við lánardrottna því við þyrftum á lánveitendum að halda í framtíðinni því það væri forsenda þess að bankakerfið virkaði.

Samkomulag við IMF ekki valdaafsal 

Ingibjörg mótmælti þeim orðum Steingrímur J. Sigfússonar, formanns Vinstri - grænna, að samningurinn við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn fæli ekki í sér valdaafsal heldur væri verið að nýta sérþekkingu sjóðins. Meginmarkmiðið nú væri að koma á starfhæfu bankakerfi og tryggja stöðu krónunnar. Þá sagði Ingibjörg að gjaldþrotalöggjöfin yrði endurskoðuð þannig að lánardrottnar og lífvænleg fyrirtæki gætu samið sín á milli utan dómstóla í þeim erfiðleikum sem gengju yfir fjármálamarkaðinn.

Sagði utanríkisráðherra enn fremur að ljóst að hallinn á fjárlögum yrði umtalsverður á næsta ári og ríkistjórnin myndi leggja fram endurskoðaða fjögurra ára áætlun. Stefnt yrði að hallalausum fjárlögum árið 2012.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×