Erlent

Ekki refsað fyrir nauðgunina sjálfa

Óli Tynes skrifar

Á Kristalsnótt sem stóð raunar níunda og tíunda nóvember árið 1938 þyrptust brúnstakkar Nazista og almennir borgarar út á götur í borgum og bæjum Þýskalands og brutu alla glugga í tugþúsundum verslana og heimila gyðinga.

Níutíu og tveir gyðingar voru myrtir og tugþúsundir fluttir í útrýmingarbúðir. Þetta var upphafið á skipulögðum ofsóknum gegn gyðingum sem lauk með því að sex milljónir þeirra voru myrtir í útrýmingarbúðum Nazista.

Enginn kom þeim til varnar og á minningarathöfn í dag sagði Angela Merkel kanslari að af því yrðu Þjóðverjar að læra.

Aldrei aftur mættu þeir standa hjá og þegja þegar gyðingar yrðu fyrir ofsóknum.

Engum var refsað fyrir Kristalsnóttina nema brúnstökkum sem var refsað fyrir að nauðga gyðingakonum. Þeim var þó ekki refsað fyrir nauðganirnar heldur fyrir að brjóta lög sem bönnuðu kynferðislegt samneyti aría og gyðinga.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×