Enski boltinn

Newcastle enn á sigurbraut

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Michael Owen fagnar fyrra marki sínu með Geremi.
Michael Owen fagnar fyrra marki sínu með Geremi. Nordic Photos / Getty Images

Newcastle vann 2-0 sigur á grönnum sínum í Sunderland og lék þar með sinn sjötta leik í röð án taps. Þetta var einnig í fjórða skiptið af síðustu fimm sem Newcastle hélt hreinu.

Michael Owen skoraði bæði mörk Newcastle í fyrri hálfleik en mörkin hefðu þó getað orðið fleiri.

Nicky Butt og Abdoulaye Faye hristu af sér smávægileg meiðsli og voru í byrjunarliði Newcastle í dag sem var eins skipað og í fjórum af síðustu fimm leikjum liðsins.

Danny Higginbotham og Paul McShane voru í byrjunarliði Sunderland í stað Jonny Evans og Phil Bardsley sem eiga við meiðsli að stríða. Þá voru Carlos Edwards og Liam Miller í byrjunarliðinu í stað þeirra Michael Chopra og Kieran Richardson.

Leikurinn var varla byrjaður þegar að Michael Owen kom Newcastle yfir. Há sending inn á teig kom frá Geremi og Owen skallaði boltann glæsilega í markið.

Skömmu síðar setti McShane knöttinn í eigið net en sem betur fer var búið að dæma aukaspyrnu og stóð því markið ekki.

En Newcastle fékk vítaspyrnu þegar Higginbotham var dæmdur brotlegur fyrir að handleika knöttinn innan teigs. Owen skoraði örugglega úr spyrnunni.

Newcastle var nær því að bæta við marki en Sunderland að minnka muninn en allt kom fyrir ekki. Owen reyndi að ná þrennunni en getur engu að síður vel við unað.

Newcastle er nú með 42 stig, rétt eins og Tottenham sem er í ellefta sæti deildarinnar. Sunderland er hins vegar í fimmtánda sæti með 36 stig, fimm stigum frá fallsæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×