Enski boltinn

Grant heldur enn í vonina

Avram Grant brá út af vananum í dag og fagnaði mörkum Chelsea
Avram Grant brá út af vananum í dag og fagnaði mörkum Chelsea NordcPhotos/GettyImages

Avram Grant, stjóri Chelsea, gaf tilfinningunum lausan tauminn í dag þegar lið hans lagði Manchester United í toppslagnum í ensku úrvalsdeildinni. Hann segir vel mögulegt að Manchester United verði á í messunni í síðustu tveimur leikjunum.

"Það er ekki auðveld staða að verða að vinna tvo síðustu leikina og ég vona sannarlega að við fáum ástæðu til að fagna í lokaumferðinni," sagði Grant eftir 2-1 sigur hans manna í dag.

Manchester United heldur toppsætinu í deildinni á markamun og á eftir leiki við West Ham og Wigan. Chelsea á eftir að sækja Newcastle heim og fær svo Bolton í heimsókn í lokaumferðinni.

"Það er mikill karakter í liði mínu og við lékum fína knattspyrnu í dag. Við erum búnir að leggja Arsenal og United að velli á heimavelli og nú er bara að klára tvo síðustu leikina," sagði stjórinn og tileinkaði sigurinn Frank Lampard og fjölskyldu hans, en Lampard missti móður sína á dögunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×