Erlent

Stýrivextir lækkaðir í Írak

Nouri al-Maliki, forsætisráðherra Íraks.
Nouri al-Maliki, forsætisráðherra Íraks. MYND/AP

Margar þjóðir hafa lækkað stýrivexti í vikunni og fleir þjóðir áforma það sama. Þar á meðal eru Írakar sem ætla að gera það innan tíðar og þá um eitt prósentustig niður í fimmtán prósent. Þá verða stýrivextir þar þremur prósentustigum lægri en á Íslandi.

Það er ekki hægt að segja að staðan hafi verið gæfuleg í Írak hin allra síðustu ár. Mannskæðar sprengjuárásir nær daglegt brauð og blóðug bræðravíg framin í ættbálkadeilum. Vissulega hefur ofbeldisverkum fækkað síðustu mánuði og og sem dæmi um þróun í átt til frjálsræðis þá hafa margar ungar konur í stærri borgum kastað frá sér hefðbundnum höfuðklæðnaði múslimakvenna án þess að hafa orðið fyrir aðkasti.

Nú er því staðan sú að efnahagsmálin, líkt og víðar, vekja jafn miklar áhyggjur og hugsunin um byssumanninn handan við hornið. Íraska ríkisstjórnin tilkynnti í dag að útgjöld ríkisins yrðu skorin niður um þrettán milljarða dala. Seðlabanki landsins tilkynnti einnig að stýrivextir yrðu lækkaðir um eitt prósentustig niður í fimmtán prósent, þremur prósentustigum lægra en stýrivextir hér á landi. Það væri gert til að styðja við vöxt hagkerfisins og lækka verðbólgu úr þrettán prósentum í tíu á næsta ári.

Þetta er það sama og bandaríski seðlabankinn gerði í fyrradag þegar hann lækkaði stýrivexti um hálf prósentustig í eitt prósent til að draga úr áhrifum niðursveiflunnar. Búist er við frekari lækkun á næstunni. Kínverjar og Norðmenn lækkuðu einnig stýrivexti í fyrradag og Japanar í morgun. Því er spáð að seðlabankar Evrópu, Ástralíu og Bretlands geri þetta einnig í næstu viku.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×