Innlent

Eiga kost á aukaláni og fyrirgreiðslu hjá LÍN

MYND/Valgarður

Menntamálaráðherra hefur ákveðið að fallast á tillögur Lánasjóðs íslenskra námsmanna um aðgerðir til að koma til móts við erfiða stöðu námsmanna erlendis vegna efnahagskreppunnar.

Tillögurnar fela í sér að nemendur eiga kost á aukaláni frá LÍN sem samsvarar framfærslu allt að tveggja mánaða. Þá eigi lánþegar við nám á Íslandi rétt á sambærilegu aukaláni sem samsvarar framfærslu eins mánaðar. Þannig verði tekið sérstakt tillit til þess kostnaðar sem fylgir því að búa fjarri fjölskyldu og heimahögum.

Þá verður svokallaður vaxtastyrkur, sem ætlað er að mæta vaxtakostnaði námsmanna vegna yfirdráttalána, hækkaður. Hækkar styrkurinn úr 250 krónum fyrir hverja ECTS-einingu sem lokið er í 400 krónur. Námsmaður sem lýkur fullu námi á skólaárinu fái þannig styrk að fjárhæð 24 þúsund krónur í stað 15 þúsund króna.

„Við útreikning og afgreiðslu námslána þeirra sem hefja lánshæft nám á vormisseri 2009 komi 5% í stað 10% tekna til frádráttar. Tilgangur breytingarinnar er að auðvelda mönnum, t.d. vegna atvinnumissis, að hefja lánshæft nám á næsta ári þrátt fyrir háar tekjur árið 2008," segir í tilkynningu frá menntamálaráðuneytinu.

Þá á mun útreikningur vegna námslána skiptinema á yfirstandandi ári miðast við gengið 26. september í stað 1. júní. Að öðru óbreyttu þýðir þetta um fjórðungshækkun framfærslulána til þessa hóps miðað við fyrri áætlun. Alls er áætlað að 400-500 lánþegar stundi nám sem skiptinemar erlendis.

Þeim nemum sem sjá fram á vanskil vegna tekjutengdra afborgana af námslánum sínum, með gjalddaga 1. september 2008 eða 1. nóvember 2008, verður gefinn kostur á gera greiðslusamkomulag til þriggja mánaða í stað tveggja mánaða áður gegn lágmarksinnborgun sem samsvarar 1/3 skuldar í stað helmings áður.

Enn fremur mun þeir sem eru að endurgreiða námslán og verða fyrir 20-30 prósent tekjumissi milli áranna 2008 og 2009 eiga kost á lægri tekjutengdri afborgun haustið 2009, og þeir sem verða fyrir tekjufalli umfram 30 prósent geta fengið tekjutengdu afborgun ársins fellda niður að fullu. „Almennt er greiðendum námslána gert að greiða 3,75%-4,75% af heildartekjum undangengis árs í afborganir af námslánum sínum. Með breytingunni er leitast við að koma til móts við þá sem verða fyrir verulegum tekjumissi milli ára," segir menntamálaráðuneytið.

Þá hefur LÍN beint því til fjármálafyrirtækja að endurskoða yfirdráttarheimildir nema í útlöndum með tilliti til gengisþróunar.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×