Enski boltinn

Hutton á leið til Tottenham

Nordic Photos / Getty Images

Nú virðist fátt geta komið í veg fyrir að Tottenham kaupi þriðja varnarmanninn í janúarglugganum. Walter Smith, stjóri Rangers í Skotlandi, segir að bakvörð félagsins Alan Hutton hafi ákveðið að semja við Lundúnaliðið.

Rangers samþykkti á dögunum 8-9 milljón punda tilboð Tottenham í skoska landsliðsmanninn, en hann hefur síðan neitað tveimur samningstilboðum enska félagsins.

Nú virðist loksins vera að rofa til í málinu því Walter Smith stjóri Rangers hefur sætt sig við að hann sé að fara yfir landamærin.

"Allir eru vonsviknir að sjá hann fara en það var undir honum sjálfum komið að taka þessa ákvörðun. Hann var búinn að lýsa því yfir að hann væri sáttur við að spila með Rangers en það hefur greinilega tekið nýja stefnu við frekari viðræður, "sagð Smith.

Það er því greinilegt að Tottenham hefur þurft að hækka launatilboð sitt verulega til hins 23 ára gamla varnarmanns sem hefur látið ganga mikið á eftir sér.

Í síðustu viku gekk Tottenham frá kaupum á bakverðinum Chris Gunter frá Cardiff og þá hefur liðið fengið til sín miðvörðinn Jonathan Woodgate frá Middlesbrough.

Það er því greinilegt að forgangsatriðið hjá Juande Ramos knattspyrnustjóra hefur verið að stoppa upp í hripleka vörn liðsins, sem hefur staðið því fyrir þrifum alla leiktíðina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×