Fótbolti

Hermann: Carew er einn besti framherji heims

John Carew heldur upp á þrítugsafmælið á Laugardalsvelli á næsta ári
John Carew heldur upp á þrítugsafmælið á Laugardalsvelli á næsta ári NordicPhotos/GettyImages

Hermann Hreiðarsson, fyrirliði Íslenska landsliðsins í knattspyrnu, segir að norski framherjinn og afmælisbarnið John Carew sé einn sá besti í heiminum.

Hermann mun fá að gæta Aston Villa-mannsins á morgun þegar Norðmenn taka á móti Íslendingum í fyrsta leik sínum í undankeppni HM 2010.

"Carew er einn af bestu framherjum heims. Hann er stór, sterkur og góður í loftinu og hann er einn af lykilmönnum liðsins," var haft eftir Hermanni í norskum miðlum í dag.

Hermann viðurkenndi að norska liðið væri vissulega sigurstranglegra á morgun. "Norska liðið mun væntanlega spila sóknarknattspyrnu, en við förum í leikinn með ákveðið skipulag í huga," sagði Hermann leyndardómsfullur í samtali við VG.

Þess má til gamans geta að Carew er 29 ára í dag og ber þrítugsafmælisdagur hans á næsta ári upp á sama dag og Íslendingar taka á móti Norðmönnum í síðari leik liðanna á Laugardalsvelli.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×