Innlent

Steingrímur: Ríkisstjórnin biðjist lausnar

MYND/GVA

Steingrímur J. Sigfússon formaður VG, gagnrýndi ríkisstjórnina harðlega í umræðum um IMF lánið á Alþingi í dag. Hann kallaði umræðuna „eftiráumræðu“ og honum fannst sérkennilegt að heyra í forsætisráðherra tala eins og það væri verið að sýna Alþingi sérstaka „virðingu“ með því að taka málið upp á þingi. Enn undarlegra væri að hlusta á Geir tala eins og það hefði fyllilega komið til álita að gera þetta án þess að þingið kæmi að málum. Hann gagnrýndi einnig deilur á milli ríkistjórnarflokkanna og sagði ástand ríkisstjórnarinnar vera þannig að hún ætti að biðjast lausnar sem fyrst.

Að mati Steingríms er ríkisstjórnin komin langt út fyrir þær heimildir sem Alþingi hefur þegar veitt henni fyrir lántöku og benti hann á að í vor hafi eingöngu verið ákveðið að veita heimild til láns til að styðja við gjaldeyrisvaraforðann. Steingrímur var einnig mjög svartsýnn á væntanlegt samstarf við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og benti orðalag í samningi við sjóðinn þar sem talað er um samráð og samstarf við fulltrúa þeirra. Þetta taldi Steingrímur skýra vísbendingu að verið væri að framselja völd ríkisins í hendur IMF.

Steingrímur óttast einnig að ekki sé að fullu greint frá öllum samningum við sjóðinn. „Eru hér allir hlutir sagðir?, eru leyniskilmálar á bakvið eins og sjóðurinn varð uppvís að gagnvart Argentínu á sínum tíma og viðurkenndi ekki fyrr en fjölmiðlar höfðu upplýst um það?“

Þá deildi Steingrímur hart á Samfylkinguna sem í einu orðinu gagnrýnir Seðlabankann harðlega en segir í hinu að bankinn eigi að sjá um að koma krónunni á réttan kjöl og nota til þess 700 milljarða lán. Hann sagði þó rétt eins og kom fram í máli Helga Hjörvar, Samfylkingarþingmanni fyrr á fundinum að allt snúist þetta um traust. En traustið þarf að vera fyrir hendi víðar en í Seðlabankanum. Það þyrfti að skipta víða um mannskap en þar á bæ, ekki síður í ríkisstjórninni. Þetta væri ekki boðlegur málflutningur né ábyrgur hjá þingmönnum Samfylkingarinnar. „Ríkisstjórn sem er svona á sig komin er ekki vandanum vaxin og hún á að biðjast lausnar,“ sagði Steingrímur og bætti við að ekki væri um annað að ræða en að efna til kosninga eins fljótt og aðstæður leyfa.

Geir Haarde veitti andsvar við ræðu Steingríms og fullvissaði þingmanninn um að ekki stæði til þess að eyða láninu frá IMF í það að reyna að styðja við gengi krónunnar eins og Steingrímur sagðist óttast. Geir sagði að um varasjóð væri fyrst og fremst að ræða sem enn gætu þurft að grípa í til þess að eyða sveiflum á markaði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×