Innlent

Segir atburði í fjarlægum löndum hafa orsakað fall bankanna

Jón Sigurðsson, stjórnarformaður FME og varaformaður bankaráðs Seðlabankans. Áður var Jón ráðherra, Seðlabankastjóri og aðalbankastjóri Norræna fjárfestingarbankans.
Jón Sigurðsson, stjórnarformaður FME og varaformaður bankaráðs Seðlabankans. Áður var Jón ráðherra, Seðlabankastjóri og aðalbankastjóri Norræna fjárfestingarbankans.

Atburðir í fjarlægum löndum orsökuðu fall íslensku bankanna, að mati Jóns Sigurðssonar stjórnarformanns Fjármálaeftirlitsins og varaformanns bankaráðs Seðlabankans. Jón var gestur Helga Seljans í Kastljósi fyrr í kvöld.

,,Þetta var atburðarás að kenna sem hófst í fjarlægum löndum og magnaðist upp í hvirfilvind. Hverjum eru hvirfilvindar að kenna?"

Jón tók ekki undir fullyrðingu Helga að hvergi væri það sama að gerast og hér á landi. Jón sagði að í mjög mörgum löndum hafi bankar riðað til falls eða fallið. Ef áhrifasvið þeirra breytinga séu afmörkuð sé hægt að finna héruð og hóp af fólki sem hefur orðið jafn hart fyrir barðinu á fjármálakreppunni og Íslendingar.

Ábyrgðin fyrir falli bankanna liggur fyrst og fremst hjá stjórnendum þeirra, að mati Jóns. ,,Hvorki Fjármálaeftirlitið né Seðlabankinn eiga að stjórna eða ráða hvað bankarnir gera. Þeir eiga að vara þá við, veita þeim aðhald á grundvelli laga og reglna. Það er þeirra hlutverk."

Jón sagði að ábyrgð Fjármálaeftirlitsins og Seðlabankans vera fyrst og fremst sú að ítrekuð varnarorð náðu ekki gegn til forsvarsmanna bankanna.

Skipti á um forystumenn hjá þessum tveimur stofnunum þegar það gerir gagn, að mati Jóns. ,,Ég held að það sé ekki mjög heppilegt að sleppa árinni í brimróðrinum."

Þá kom fram í viðtalinu að yfirtakan á Glitni var ekki rædd í bankaráði Seðlabankans. Jón sagði að stundum bæri atburði hratt að. ,,Þetta er allt túlkunaratriði en ég tel að það hefði verið heppilegt að hafa víðtækara samráð um það mál."










Fleiri fréttir

Sjá meira


×