Fótbolti

Birkir Már: Ég er hlaupagikkurinn

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Birkir Már Sævarsson í góðum félagsskap í Noregi - með þeim Eiði Smára Guðjohnsen og Heiðari Helgusyni.
Birkir Már Sævarsson í góðum félagsskap í Noregi - með þeim Eiði Smára Guðjohnsen og Heiðari Helgusyni. Nordic Photos / AFP

Birkir Már Sævarsson segist ánægður með það hlutverk hjá íslenska landsliðinu sem Ólafur Jóhannesson landsliðsþjálfari hefur falið honum.

Birkir lék á hægri kantinum gegn Norðmönnum um helgina og er ekki búist við öðru en að hann verði í sama hlutverki í kvöld. Ísland mætir Skotlandi í undankeppni HM 2010 klukkan 18.30 á Laugardalsvelli.

„Ég var auðvitað sáttur við stigið í Noregi en það er alltaf eitthvað sem má laga. Það verður vonandi gert í næsta leik," sagði Birkir í samtali við Vísi.

„Ég var sáttur við varnarvinnuna mína í leiknum en svo kom á daginn að ég var of aftarlega á vellinum. Ég hefði mátt vera duglegri að sleppa manninum og leyfa Grétari að taka hann. Við reyndum að laga það í seinni hálfleik og það gekk ágætlega."

Hann neitar því ekki að hann er hlaupagikkurinn í liðinu. „Ég er ánægður með mitt hlutverk í liðinu. Ég á að geta hlaupið svona í 90 mínútur og er í góðu standi til þess. Ég hef líka gaman af því að geta bæði sinnt varnar- og sóknarhlutverki."

Birkir segir að stemningin í íslenska leikmannahópnum er gríðarlega góð. „Hún er búin að vera frábær allan þennan tíma. Það mæta allir glaðir í bragði á æfingar og það er gaman að vera upp á hóteli."

Hann gekk í sumar til liðs við Brann í Noregi frá Val og hefur nú fengið að spila stórt hlutverk með íslenska landsliðinu. Hann tekur þó lífinu með stóískri ró.

„Ég er bara rólegur og nýtt þess bara," sagði Birkir. Hann hefur verið að spila á hægri kantinum með Brann að undanförnu.

„Ég er nú fenginn þangað sem bakvörður en það voru meiðsli í þessari stöðu og því ákveðið að setja mig þangað. Það hefur gengið ágætlega en ég vona þó að ég fái tækifæri í bakverðinum fljótlega."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×