Íslenski boltinn

Fjölnir vann í Keflavík

Elvar Geir Magnússon skrifar

Fjórir leikir voru í Landsbankadeild karla í kvöld. Athyglisverðustu úrslitin urðu í Keflavík þar sem heimamenn biðu lægri hlut.

Nýliðar Fjölnis gerðu sér lítið fyrir og urðu fyrsta liðið til að sækja sigur til Keflavíkur. Þeir unnu 2-1 útisigur á toppliðinu. Guðmundur Steinarsson kom Keflavík yfir eftir hálftíma en Gunnar Már Guðmundsson jafnaði rétt fyrir hlé úr vítaspyrnu sem hann fiskaði sjálfur.

Fjölnismenn, vel studdir af stuðningsmannahópnum Kára, náðu að tryggja sér sigurinn þegar Ólafur Páll Snorrason skoraði á 53. mínútu. Gott skot utan teigs sem söng í netinu en Ólafur hafði unnið boltann sjálfur.

ÍA og Þróttur gerðu 1-1 jafntefli á Skaganum. Heimamenn voru talsvert meira með boltann en gekk illa að finna leiðina í markið. Það tókst á 72. mínútu þegar Guðjón Heiðar Sveinsson skoraði. Hjörtur Hjartarson jafnaði hinsvegar með laglegu marki eftir sendingu Rafns Andra Haraldssonar.

KR-ingar áttu ekki í vandræðum með botnlið HK og unnu 3-0 útisigur á Kópavogsvelli. Guðjón Baldvinsson skoraði tvö fyrstu mörkin snemma leiks og það var svo hinn sjóðheiti Björgólfur Takefusa sem innsiglaði sigurinn undir lokin.

Fram vann 2-1 sigur á Breiðabliki á Laugardalsvellinum. Heiðar Geir Júlíusson og Ívar Björnsson komu Fram í tveggja marka forystu með skallamörkum eftir sendingar frá Paul McShane. Guðmundur Kristjánsson minnkaði muninn rétt fyrir hálfleik. Prince Rajcomar fékk að líta beint rautt spjald hjá dómara leiksins eftir að hafa gefið Auðuni Helgasyni olnbogaskot á 74. mínútu og Blikar luku leik tíu.

Fylgst var með leikjum kvöldsins á Boltavaktinni.

 

Slóð Boltavaktarinnar er visir.is/boltavakt

19:15 ÍA - Þróttur 1-1

19:15 HK - KR 0-3

19:15 Keflavík - Fjölnir 1-2

20:00 Fram - Breiðablik 2-1

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×