Innlent

10-11 löggan viðurkennir mistök en neitar sök

Átökin í 10-11
Átökin í 10-11 MYND/YOUTUBE

Aðalmeðferð í máli 10-11 lögreglunnar svokölluðu fór fram í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. Lögregluþjónninn er ákærður fyrir að hafa ráðist á pilt í verslun 10-11 sem grunaður var um þjófnað. Hann neitar sök. Atvikið náðist á myndband og var sett á netið nokkrum klukkustundum síðar. Lögreglumaðurinn viðurkennir mistök en segist hafa verið yfirvegaður allan tímann. Misræmi er í dagbókarfærslu, skýrslu og framburði lögregluþjónsins fyrir dómi.

Málið komst í fréttirnar í lok maí á þessu ári en lögreglan var kölluð að verslun 10-11 í Grímsbæ vegna gruns um þjófnað. Til orðaskipta kom á milli piltsins, sem er 17 ára gamall, og lögregluþjónsins sem endaði með því að pilturinn var handjárnaður og fluttur niður á lögreglustöð. Ekkert þýfi fannst á drengnum.

Lögregluþjónninn sagði fyrir dómi í morgun að þegar á vettvang var komið hefði hann beðið piltinn að tæma vasa sína. Hann hefði sagst vera með síma í nærbuxunum en neitað að sína sér símann. Þá hefði hann spurt sig hvort hann væri „fucking" þroskaheftur.

Lögregluþjónninn segir að þá hafi hann ætlað að klára málið svo ekki kæmi til frekari láta. Hann hafi því ákveðið að „hnippa" í hann „eins og er gert". Hann hafi ætlað að taka í kragann á peysu piltsins sem hefði mistekist með þeim afleiðingum að hann hafi farið í hálsinn á honum. Aðspurður hversvegna hann hefði farið í hálsinn á piltinum sagðist hann hafa misreiknað sig og sleppt takinu eftir 2-3 sekúndur þegar hann hefði áttað sig á aðstæðum.



Ekkert minnst á hálstak í dagbókarfærslu lögregluþjónsins

Lögregluþjónninn hefur starfað í lögreglunni í 6 ár og er lögregluskólagenginn. Þar sagðist hann hafa lært að fyrst komi fyrirskipun og síðan valdbeiting. Hann viðurkenndi að í þessu tilviki hefði hann ekki farið alveg eftir bókinn en hann hafi ekki reiðst, heldur verið yfirvegaður allan tímann.

Lögregluþjónninn segir að við þetta hefði pilturinn „hjólað í sig" sem endaði þannig að þeir duttu í gólfið. Hann hafi síðan ekki getað gert neitt annað í stöðunni en að koma piltinum í handjárn til þess að róa hann.

Í frumskýrslu af málinu sem lögregluþjónninn ritaði kemur fram að hann hafi tekið piltinn hálstaki þar sem pilturinn hefði ýtt á móti og reynt að slá til sín. Fyrir dómi sagði hann hinsvegar að þetta hefði einungis verið frumskýrsla og hann hefði ætlað að vinna betur í henni. Þarn hefði verið köld lýsing á því sem gerðist, hún hefði ekki verið 100% sem skýrðist af því að hann hefði verið í uppnámi og allt hefði verið að ganga á göflunum í þjóðfélaginu vegna málsins.

Eftir að næturvaktinni lauk fór hann heim til þess að leggja sig. Fljótlega fór síminn að hringja ótt og títt og þar voru á ferð yfirmenn hans af Hverfisgötunni. Voru þeir nokkuð æstir að sögn lögregluþjónsins og vildu fá skýrsluna strax. Honum hefði því ekki gefist tími til þess að vinna betur í skýrslunni.

Í dagbókarfærslu lögreglunnar þessa nóttina sem einnig er rituð af lögregluþjóninum kemur fram að pilturinn hafi reynt að slá í andlit lögregluþjónsins. Þar kemur ekki fram að lögreglan hafi gripið um háls piltsins. Lögregluþjónninn sagði dagbókarfærsluna ekki nákvæma og hefði aldrei átt að vera endanleg skýrsla um málið.

Þegar pilturinn var kallaður til sem vitni í málinu var hann ekki á staðnum. Sjálfur var hann staddur í dómssal á annarri hæð héraðsdóms sem ákærði í öðru máli. Hann mætti þó fljótlega.



Lögreglan baðst afsökunar

Pilturinn viðrukenndi að hafa slegið til lögreglumannsins í átökunum sem enduðu með því að þeir féllu í jörðina. Einnig kom fram í máli hans að lögreglumaður hefði sest á sig í lögreglubifreiðinni niður á lögreglustöð. Hann hefði misst annan skóinn sinn inni í búðinni og hefði verið að reyna að biðja félaga sinn að koma með hann með því að banka hausnum í rúðu bifreiðarinnar.

Pilturinn sagði að óþægilegt hefði verið að lenda í þessu og honum hefði kennt til eftir atvikið. Einnig kom fram í framburði hans að kvöldið eftir atvikið hefði annar lögregluþjónn hringt í sig og beðist afsökunar á framferði lögregluþjónsins.

Hægt er að sjá myndbandið hér.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×