Innlent

Segist ekki hafa farið með rangt mál

Björn Bjarnason dómsmálaráðherra.
Björn Bjarnason dómsmálaráðherra.

Uppákoman í þinginu í vikunni þar sem Steingrímur J. Sigfússon sagði m.a Birni Bjarnasyni dómsmálaráðherra að „étann sjálfur" fór vart framhjá nokkrum manni. Í kjölfarið gekk formaður Vinstri grænna upp að forsætisráðherra og ýtti all hressilega í öxlina á honum. Björn lét þau orð falla að Steingrímur stæði í vegi fyrir því að áform um hina sérstöku rannsóknarnefnd á vegum þingsins hefði tafist með afstöðu sinni.

„Björn Bjarnason bar á mig algjörlega óréttmætar sakir. Hann var í raun með eitthvað slúður um það að ég stæði sérstaklega gegn því að rannsóknarnefndin kæmist á koppinn. Ég sit náttúrulega ekkert þegjandi undan slíku kjaftæði frá honum," sagði Steingrímur í samtali við Vísi í gær.

Björn skrifar um málið á bloggsíðu sinni í gærkvöldi. Þar dregur Björn hinsvegar ekkert í land með fullyrðingar sínar í garð Steingríms.

„Hitt stenst ekki, að ég hafi farið með rangt mál um, að áform um hina sérstöku rannsóknarnefnd á vegum þingsins hafi tafist vegna afstöðu visntri/grænna undir forystu Steingríms J. Mér skilst hins vegar, að nú sé málið komið á beinu brautina og ber að fagna því" skrifar Björn á síðu sína.

Hann segist einnig hafa fengið bréf frá fyrrverandi þingmanni sem segir: „Maður horfði orðlaus á framkomu SJS í þinginu í fréttatíma sjónvarps í kvöld. Held að annað eins hafi aldrei gerst í sölum Alþingis. Hvernig skyldi standa á því að til forystu í flokkunum lengst til vinstri, Alþýðubandalagi og og svo VG veljast ævinlega orðljótustu menn sem náð hafa kosningu á Alþingi. Skrítið.“


Tengdar fréttir

Steingrímur: „Éttann sjálfur!“

Steingrímur J. Sigfússon formaður VG, brást ókvæða við þegar Björn Bjarnason sakaði hann um að standa í vegi fyrir því að nefnd verði skipuð til að rannsaka bankahrunið og ástæður þess. Steingrímur sakaði Björn um að fara með þvætting og að því búnu gekk hann að Geir Haarde og virtist ýta við honum þrívegis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×