Innlent

Ekki sjálfgefið að Davíð víki

Geir H. Haarde forsætisráðherra segir ekki gefið að Davíð Oddsson fari frá þó Fjármálaeftirlitið verði sameinað Seðlabanka Íslands, eins og pólitískur vilji er fyrir hjá báðum stjórnarflokkunum. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra vill hins vegar fá nýja forystu og einn faglegan bankastjóra.

Þessi faglegi bankastjóri á ekki að heita Davíð Oddsson, ef Ingibjörg Sólrún og þingflokkur Samfylkingarinnar fær að ráða, en hún segir að ríkisstjórn og bankastjórn Seðlabankans verði að ganga í takt, sem ekki sé fyrir hendi nú.

Verði Fjármálaeftirlitið sameinað Seðlabanka Íslands - eins og fyrirkomulagið reyndar var hér á árum áður - yrði það að hennar mati til að auka eftirlit með fjármálakerfinu, en endurskoða þurfi skipulagið í heild sinni.

,,Ég tel að þessi skoðun eigi að hafa í för með sér breytingar á stjórnskipulagsins bankans og tryggja það að einn faglegur stjórnandi sé yfir hvorutveggja," segir Ingibjörg Sólrún.

Geir H. Haarde forsætisráðherra segir að hugmyndin sé sú að sameina krafta, verði af sameiningunni, en hann er á öndverðum meiði við utanríkisráðherra hvað varðar stjórnendur.

Geir segir að málið snúist ekki um að Seðlabankinn fari inn í Fjármáleftirlitið heldur öfugt.

Aðspurður hvort núverandi bankastjórir muni starfa áfram ef að sameiningunni verði segir Geir: ,,Nei nei. Þetta mál snýst alls ekki um það."

Í samtölum við liðsmenn stjórnarflokkanna í dag sögðu þeir mikilvægt að málinu verði hraðað til að eyða óvissu um Fjármálaeftirlitið, og að niðurstaða fáist helst áður en krónan verður sett á flot, sem forsætisráðherra segir að verði að líkindum gert fyrir áramót. Alls óvíst er þó hvort það takist.









Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×