Innlent

Meiri stemmning í sjávarútveginum en um árabil

Íslenskir frystitogarar hafa skilað á land aflaverðmæti sem nemur tveimur milljörðum króna síðustu daga. Meiri stemmning er í greininni en um árabil.

Björn Valur Gíslason, skipstjóri á Kleifaberginu sem Brim gerir út, segir að sjómennska virðist aftur komin í tísku og sé ánægjulegt að fylgjast með auknum áhuga almennings og fjölmiðla á greininni. Kleifabergið er nýkomið úr löngum túr þar sem aðalveiðisvæðið var norður af Múrmanks. Þar veiddist þorskur og nam aflaverðmæti um 240 milljónum króna. Víðir Sigurðsson var skipstjóri í túrnum.

Þetta er ekki eini risatúrinn undanfarið. Skip Samherja hafa landað góðum afla undanfarið og þá var komið með afla í land hjá Granda fyrir skömmu, þar sem aflaverðmæti er sagt svipað og hjá Kleifaberginu, um 240 milljónir í einum túr. Allir frystitogarar landsins hafa samkvæmt upplýsingum frá Karli Má Einarssyni útgerðarstjóra Brims lokið góðum túrum, aflaverðmæti þeirra er frá 150 milljónum og upp í 200 að jafnaði og reiknast mönnum til að á nokkrum dögum hafi afla fyrir tvo milljarða verið landað í heildina við Íslands strendur. Það gæti verið Íslandsmet.

Og þessar tekjur skila sér í aukinni spurn eftir plássi á sjó. Á þeim tíma sem allt snerist um bankana var orðið erfitt fyrir útgerðir að fá vana mann á sjó en nú er öldin önnur. Ein laus hásetastaða var auglýst á dögunum og sóttu 400 manns um hana, samkvæmt upplýsingum frá skipstjóra.

Og enn gæti átt eftir að fjölga í flotanum því Karl Már Einarsson, útgerðarstjóri Brims, segir ekkert launungarmál að sjómenn búist við aukaþorskkvóta fyrir jól.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×