Enski boltinn

Berbatov tryggði United sigur á Middlesbrough

Elvar Geir Magnússon skrifar

Einn leikur var í ensku úrvalsdeildinni í kvöld. Englandsmeistarar Manchester United unnu þá 1-0 sigur á Middlesbrough á heimavelli sínum. Búlgarski sóknarmaðurinn Dimitar Berbatov skoraði eina mark leiksins á 69. mínútu.

Manchester United var betra liðið í leiknum þó það hafi verið langt frá sínu besta. Middlesbrough fékk þó ágætis færi snemma í seinni hálfleik og hefði með smá heppni getað komist yfir.

Þegar rúmar tuttugu mínútur voru til leiksloka skoraði Berbatov markið. Boltinn barst til hans eftir fyrirgjöf Michael Carrick og kláraði færið smekklega. Stuttu seinna fékk Ji-Sung Park algjört dauðafæri en skaut yfir þegar auðveldara var að setja boltann í markið.

United er nú með 38 stig í þriðja sæti en liðið á tvo leiki til góða á toppliðin tvö. Með sigri í þeim leikjum verður liðið stigi á eftir toppliði Liverpool. Middlesbrough hefur ekki náð sigri í átta leikjum í röð og er í 17.-18. sæti deildarinnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×