Erlent

Próf­raun á réttarríkið

Guðjón Helgason skrifar

Verjandi Josef Fritzl telur að mál hans muni reyna á þanþol réttarríkisins. Margir vilji taka Fritzl af lífi fyrir glæpi sína án dóms og laga, en hann fangelsaði dóttur sína, nauðgaði henni ítrekað og gat með henni 7 börn.

Rudolf Mayer, verjandi Fritzls, er vel þekktur í Austurríki fyrir að taka að sér erfið mál sem vekja athygli. Hann telur að ekki verði hægt að ákvarða neitt um sekt og þá refsingu fyrr en skjólstæðingur hans hafi gengist undir ítarlega geðrannsókn.

Mayer segist hafa verið gagnrýndur fyrir að taka málið að sér.

"Ég hef þegar fundið fyrir fjandskap. Fólk spyr hvernig ég geti varið mann sem þennan," segir Mayer.

Hann segir þetta prófraun á ríki sem byggi á lögum, málið reyni á það hvort borgarar hugsi með þeim þætti að þau eigi að gilda. Með því að segja að einhver eigi ekki rétt á vernd ríkisins lengur vegna tiltekinna glæpa þýðir að viðkomandi er gerður útlægur. Hægt væri að hengja hann án réttarhalda. Það myndi sýna að það séu margir sem líti svo á að lög eigi ekki að gilda.

Natascha Kampusch, sem slapp úr klóm mannræningja snemma árs 2006 eftir átta ára gíslingu hefur boðið börnum Fritzl fjárhagsaðstoð og andlegan stuðning. Hún segir að börnin og móðir þeirra þurfi að aðlagast nýju lífi. Þau séu nú á leynilegum stað en hún telji að það hefði átt að reyna að leyfa þeim að halda til áfram í húsinu þar sem kjallaradýflissan var.

Kampusch bendir á að það umhverfi þekki þau og nú séu þau í framandi umhverfi. Það geti ekki verið gott fyrir þau að taka þau svo snögglega úr umhverfinu sem þau þekkja.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×